Lamisil (terbinafin)

Lamisil (terbinafin)

Prenta

Ekki má nota Lamisil og hafa skal samband við lækninn

• Ef þú ert með ofnæmi fyrir terbinafinhýdróklóríði eða einhverju öðru innihaldsefni Lamisil.
• Ef þú ert með langvarandi eða virkan lifrarsjúkdóm.
• Ef þú ert með skerta nýrnastarfsemi.

Ræða skal við lækninn áður en Lamisil er notað

• Ef þú notar þunglyndislyf (sjá einnig kaflann „Notkun annarra lyfja“).
• Ef þú notar lyf við hjartasjúkdómum og/eða of háum blóðþrýstingi (sjá einnig kaflann „Notkun annarra lyfja“).
• Ef þú notar lyf við hjartsláttartruflunum (sjá einnig kaflann „Notkun annarra lyfja“).

Mikilvægt er að segja lækninum strax frá því ef fram kemur eitthvert eftirtalinna einkenna

•  þrálát ógleði af óþekktum orsökum, uppköst, kviðverkir, lystarleysi, óeðlileg þreyta, ef húðin eða hvítan í augunum verður gulleit, óvenju dökkt þvag eða óvenju ljósar hægðir (einkenni lifrarbilunar).
• útbrot, roði, blöðrumyndun/sviði í vörum, augum eða munni, húðflögnun (einkenni alvarlegra viðbragða í húð).
• slappleiki, óvenjulegar blæðingar, marblettir eða tíðar sýkingar (einkenni blóðsjúkdóms).
Komi einhver þessara einkenna fram skal strax hafa samband við lækni eða sjúkrahús. Hugsanlega þarf að hætta meðferð með Lamisil.

Nota má Lamisil samhliða öðrum lyfjum en ræða skal við lækninn áður en byrjað er að nota Lamisil ef eftirtalin lyf eru notuð

• Ákveðnar tegundir þunglyndislyfja (þríhringlaga þunglyndislyf, sértækir endurupptökuhemlar serotonins (SSRI) og monoaminoxidasahemlar (MAO-I af gerð B), leitið upplýsinga hjá lækninum).
• Ákveðin tegund lyfja við hjartasjúkdómum og/eða of háum blóðþrýstingi (beta-blokkar, leitið upplýsinga hjá lækninum).
• Ákveðin tegund lyfja við hjartsláttartruflunum (hjartsláttarlyf af flokki 1A, 1B og 1C, leitið upplýsinga hjá lækninum).
• Rifampicin (sýklalyf).
• Cimetidin (lyf við magasári).
• Ciclosporin (ónæmisbælandi lyf).
• Koffín


Meðganga
Þungaðar konur mega ekki nota Lamisil nema slíks sé brýn þörf og þá að ráði læknis.

Brjóstagjöf
Ekki skal hafa barn á brjósti því Lamisil berst í brjóstamjólk.

Skert nýrna-/lifrarstarfsemi
Nota á minni skammt handa þeim sem eru með skerta nýrnastarfsemi. Fylgið fyrirmælum læknisins.
Lamisil er ekki ætlað sjúklingum með langvarandi eða virkan lifrarsjúkdóm.

Hafið eftirfarandi í huga
Naglasveppur: Yfirleitt eru sveppafrumurnar dauðar þegar meðferð lýkur (t.d. 12 vikna meðferð við tánaglasveppi), en nöglin mun ekki líta eðlilega út fyrr en sá hluti hennar sem sýktur var af sveppnum, er vaxinn fram. Vegna þess að tánögl vex um það bil 1-2 mm á mánuði getur liðið heilt ár frá því meðferð hófst, þar til öll merki um sveppasýkingu í nöglum eru horfin.

HUGSANLEGAR AUKAVERKANIR

Eins og við á um öll lyf getur Lamisil valdið aukaverkunum, það gerist þó ekki hjá öllum. Aukaverkanirnar eru yfirleitt vægar eða í meðallagi alvarlegar og tímabundnar. Greint hefur verið frá eftirtöldum aukaverkunum:

Sumar mjög sjaldgæfar aukaverkanir og aukaverkanir sem koma örsjaldan fyrir geta verið alvarlegar:

Mjög sjaldgæfar aukaverkanir (koma fyrir hjá 1 til 10 af hverjum 10.000 sjúklingum): Skert lifrarstarfsemi þ.m.t. alvarleg lifrarbilun. Tafarlaust skal hafa samband við lækni ef fram kemur óútskýrð langvarandi ógleði, lystarleysi, óeðlileg þreyta, uppköst, verkir í efri og hægri hluta kviðar, gulleit húð eða augu, óvenjulega dökkt þvag eða óvenjulega ljósar hægðir.
Aukaverkanir sem koma örsjaldan fyrir (koma fyrir hjá innan við 1 af hverjum 10.000 sjúklingum): Breytingar á blóðgildum (óvenjulegar blæðingar, marblettir), alvarleg viðbrögð í húð t.d. Stevens-Johnson heilkenni (hiti, blöðruútbrot einkum á höndum og fótum sem og bólga við eitt eða fleiri líkamsop), flögnun efsta lags húðar og bráð útbrot í húð með litlum blöðrum; ofnæmisviðbrögð (öndunarerfiðleikar, sundl, þroti einkum í andliti og hálsi), þar með talið skyndileg vökvasöfnun í húð og slímhúðum (ofsabjúgur); rauðir úlfar. Í þessum tilvikum skal tafarlaust hafa samband við lækni eða sjúkrahús.

Aðrar aukaverkanir
Mjög algengar aukaverkanir (koma fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 sjúklingum): Óþægindi frá meltingarvegi t.d. mettunartilfinning, lystarleysi, meltingartruflun, ógleði, vægir kviðverkir og niðurgangur; útbrot, ofsakláði, vöðva- og liðverkir.
Algengar aukaverkanir (koma fyrir hjá 1 til 10 af hverjum 100 sjúklingum): Höfuðverkur.
Sjaldgæfar aukaverkanir (koma fyrir hjá 1 til 10 af hverjum 1.000 sjúklingum): Breytt bragðskyn og missir bragðskyns sem gengur þó yfirleitt til baka nokkrum vikum eftir að notkun Lamisil er hætt. Í einstökum tilvikum hefur þessu fylgt lystarleysi og verulegt þyngdartap. Hafið samband við lækni ef bragðtruflanir og missir bragðskyns varir dögum saman.
Aukaverkanir sem koma örsjaldan fyrir (koma fyrir hjá innan við 1 af hverjum 10.000 sjúklingum): Hárlos, þreyta, psoriasislík útbrot, versnun psoriasis, sundl, minnkað snertiskyn, dofi og náladofi.

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita ef vart verður við aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli eða ef aukaverkanir sem taldar eru upp reynast alvarlegar.